Aur Áfallatrygging er eingöngu í boði fyrir korthafa Aur korts sem valið hefur áfallatrygginguna annað hvort í gegnum áskriftarleið sína hjá Aur eða keypt hana sérstaklega í gegnum Aur.
1. Skilgreiningar.
1.1 Í skilmálum þessum eru eftirfarandi hugtök skilgreind þannig:
a. félagið, merkir TM tryggingar hf.,
b. korthafi, er sá sem hefur Aur kort og áfallatryggingu í gildi,
c. Aur kort, merkir kort gefið út af Kviku banka hf. fyrir Aur,
d. slys, merkir skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur líkamsmeiðslum á einstaklingi og gerist án vilja hans,
e. sálfræðingur, merkir þann sem hefur rétt til að kalla sig sálfræðing og starfar sem slíkur hér á landi skv. (samkvæmt) reglugerð nr. 1130/2012 um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi,
f. sambýlismaki, merkir að sambúðaraðilar hafi sameiginlegt: a) skráð lögheimili, b) skattframtal, eða c) sambúðin hafi sannanlega varað í að minnsta kosti eitt ár.
2. Þeir sem vátryggðir eru.
2.1 Vátryggingin nær til korthafa Aur korts, maka hans eða sambýlismaka og barna á framfæri þeirra til loka 22 ára aldurs.
3. Vátryggingarsvið. Vátryggingarfjárhæð.
3.1 Vátryggingin greiðir kostnað vegna meðferðar sálfræðings sem vátryggður leitar sér vegna áfalls í kjölfar eftirtalinna atvika (vátryggingaratburða) sem verða þegar vátryggingin er í gildi:
a. vátryggður hefur lent í yfirvofandi lífshættu,
b. vátryggður hefur lent í alvarlegu slysi, eða á beinan hlut að slíku slysi,
c. vátryggður verður fyrir líkamsárás eða ofbeldi,
d. brotist er inn á heimili vátryggðs,
e. heimili vátryggðs verður fyrir stórtjóni,
f. vátryggður greinist með alvarlegan sjúkdóm, svo og ef börn, maki, sambýlismaki eða foreldrar vátryggðs 65 ára eða yngri greinast með alvarlegan sjúkdóm, lenda í alvarlegum slysum eða láta lífið.
3.2 Vátryggingin greiðir fyrir allt að fimm meðferðartíma hjá sálfræðingi að hámarki kr. 150.000 fyrir hvern vátryggðan vegna hvers atviks en samanlagt fyrir alla vátryggða kr. 500.000 á hverju 12 mánaða tímabili. Vátryggingin greiðir eingöngu kostnað sem fellur til á gildistíma vátryggingar.
3.3 Bætur greiðast aðeins úr vátryggingu eins Aur korts fyrir hvern vátryggðan vegna hvers vátryggingaratburðar.
4. Takmarkanir á gildissviði vátryggingarinnar.
4.1 Vátryggingin bætir ekki:
a. kostnað vegna meðferðar sem fellur til þegar 12 mánuðir eru liðnir frá vátryggingaratburði, skv. gr. (grein) 3.1,
b. annan tilfallandi kostnað vegna meðferðar, s.s. ferðakostnað,
c. kostnað vegna atvika sem rakin verða til þátttöku vátryggðs í handalögmálum eða refsiverðum verknaði sem valdið er af ásetningi,
d. kostnað vegna atvika sem ábyrgðartrygging eða slysatrygging, þar sem bætur ákvarðast eftir reglum skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, tekur til og bótaskylda hefur verið viðurkennd.
4.2 Vátryggingin tekur ekki til kostnaðar vegna meðferðar sálfræðings ef vátryggingaratburð er að rekja til:
a. stríðs, óeirða eða hvers konar hernaðarátaka, verkfallsaðgerða eða annara sambærilegra atburða,
b. kjarnorkuvopna, jónandi geislunar eða geislavirkra efna,
c. eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða, vatnsflóða og annarra náttúruhamfara,
d. hvers konar líffræðilegra eða efnafræðilegra áhrifa og/eða eitrun, þ.m.t. (þar með talið) vegna sýkla og veira, sem hljótast af völdum hryðjuverka.
5. Gildistími, endurnýjun og uppsögn. Greiðsla iðgjalds.
5.1 Vátryggingin gildir fyrir það tímabil sem tilgreint er í vátryggingar- eða endurnýjunarskírteini. Þegar tímabilinu lýkur framlengist vátryggingin um einn mánuð í senn nema korthafi segi upp vátryggingunni eða hætti með áskrift að Aur korti. Fellur vátryggingin þá úr gildi við lok vátryggingartímabils.
5.2 Sé iðgjald ekki innifalið í áskriftargjaldi Aur er eingöngu hægt að skuldfæra iðgjaldið af Aur korti korthafa.
6. Landfræðileg mörk
6.1 Vátryggingin gildir vegna atvika sem verða hvar sem er í heiminum en meðferð skv. gr. 3.1 skal fara fram á Íslandi.
7. Ásetningur og stórkostlegt gáleysi vátryggðs.
7.1 Valdi vátryggður vátryggingaratburði af ásetningi ber félagið enga ábyrgð á tjóninu. Hafi hann valdið tjóninu af stórfelldu gáleysi er félagið laust úr ábyrgð í heild eða að hluta, sbr. (samanber) 27. gr. laga um vátryggingarsamninga.
8. Vátrygging hjá öðru félagi.
8.1 Þegar tjón hefur orðið og í gildi er önnur vátrygging sem tekur til tjónsins, skal uppgjör bóta fara fram eftir því sem mælt er fyrir um í 37. gr. laga um vátryggingarsamninga.
9. Svik og rangar upplýsingar.
9.1 Hafi korthafi við gerð eða endurnýjun vátryggingarsamnings sviksamlega eða með öðrum hætti vanrækt skyldu sína til að veita félaginu upplýsingar um atvik sem haft geta þýðingu fyrir mat þess á áhættunni og vátryggingaratburður hefur orðið fellur ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta, sbr. 20. gr. laga um vátryggingarsamninga. Rangar og ófullnægjandi upplýsingar veita félaginu ennfremur rétt til að segja vátryggingunni upp, sbr. 21. gr. laganna.
9.2 Veiti vátryggður rangar upplýsingar sem hann veit eða má vita að leiða til þess að hann fær greiddar bætur sem hann á ekki rétt til fellur bótaréttur hans niður og félagið getur sagt upp öllum vátryggingarsamningum sínum við vátryggðan eins og nánar greinir í 47. gr. laga um vátryggingarsamninga.
10. Meðferð ágreiningsmála og varnarþing.
10.1 Að öðru leyti en kveðið er á um í skilmálum þessum, vátryggingarskírteini eða öðrum gögnum, sem vátryggingarsamningurinn byggir á, gilda um hann lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
10.2 Ágreiningi varðandi vátryggingarsamning og bótaskyldu félagsins að öðru leyti má skjóta til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Upplýsingar um nefndina og starfshætti hennar má fá hjá félaginu.
10.3 Þrátt fyrir úrræði 2. mgr. er aðilum heimilt að leggja ágreininginn fyrir dómstóla. Slík mál, svo og önnur mál sem rísa út af vátryggingu þessari, skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Félaginu er þó einnig heimilt að höfða mál út af vátryggingunni á heimilisvarnarþingi vátryggðs.
10.4 Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
Skilmálar þessir gilda frá 1. apríl 2023.
Skráning í tjónagrunn Creditinfo Lánstrausts hf.
Tjón sem tilkynnt eru til vátryggingafélaga eru skráð í sérstakan tjónagrunn sem rekinn er af Creditinfo Lánstrausts hf. samkvæmt samningi við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) sem félagið á aðild að og samkvæmt heimild Persónuverndar. Félagið telst ábyrgðaraðili í skilningi persónuverndarlaga nr. 90/2018 vegna skráningar þess á upplýsingum í grunninn og uppflettingum sem framkvæmdar eru á vegum þess. Tilgangur með skráningu í tjónagrunninn er að stemma stigu við vátryggingarsvikum og ofgreiðslu vátryggingabóta. Skráðar eru upplýsingar um kennitölu tjónþola, tjónsnúmer, tegund vátryggingar og tjóns, dagsetning tjóns og skráningar, staðsetning tjóns og eftir atvikum einkvæmt númer hins vátryggða, s.s. skráningarnúmer ökutækis. Við skráningu tjóns fær félagið yfirlit yfir öll tjón sem tjónþoli hefur tilkynnt óháð félagi og skráð hafa verið í tjónagrunninn. Eingöngu starfsmenn félagsins sem skrá tjón og vinna að tjónauppgjöri hafa aðgang að tjónagrunninum. Upplýsingum skal eytt úr tjónagrunni þegar þeirra gerist ekki lengur þörf í þágu tilgangs vinnslunnar, í síðasta lagi þegar 10 ár eru frá skráningu upplýsinganna.
Aur er vörumerki Kviku banka hf.