Aur Vörutrygging er eingöngu í boði fyrir korthafa Aur korts sem valið hefur vörutrygginguna annað hvort í gegnum áskriftarleið sína hjá Aur eða keypt hana sérstaklega í gegnum Aur.

1. Skilgreiningar.

1.1 Í skilmálum þessum hafa eftirtalin hugtök eftirfarandi merkingu:

a. félagið, merkir TM tryggingar hf.,

b. korthafi, er sá sem hefur Aur kort og vörutryggingu í gildi,

c. Aur kort, merkir kort gefið út af Kviku banka hf. fyrir Aur,

d. vátryggður, er korthafi Aur korts, sem jafnframt er kaupandi og eigandi vöru,

e. vara, munur sem vátryggður kaupir með Aur korti sínu á gildistíma vátryggingarinnar og telst til almenns innbús eða persónulegra lausafjármuna vátryggðs.

2. Gildissvið vátryggingarinnar.

2.1 Vátryggingin tekur til tjóns á vöru af völdum skyndilegs og utanaðkomandi atviks sem verður innan sex mánaða frá kaupdegi hennar enda sé vátryggingin í gildi á tjónsdegi.

3. Takmarkanir á gildissviði vátryggingarinnar.

3.1 Vátryggingin bætir ekki tjón sem verður á vöru:

a. þegar hún týnist, gleymist, misleggst eða er skilin eftir á almannafæri,

b. vegna þjófnaðar nema um sé að ræða innbrot og á vettvangi séu greinileg og ótvíræð merki þess að brotist hafi verið inn,

c. af völdum snöggra hita- og/eða rakabreytinga,

d. af völdum eðlilegs slits eða ófullnægjandi viðhalds,

e. af völdum galla á vörunni, svo sem framleiðslugalla, hönnunargalla, útlitsgalla, samsetningargalla eða bilana,

f. sem veldur eingöngu útlitsskemmdum en rýrir ekki notagildi vörunnar,

g. af völdum heimilisdýra,

h. sem kaupréttarleg bótakrafa, ábyrgð eða önnur skuldbinding framleiðenda, heildsala, smásala, viðgerðarmanns eða annars aðila nær yfir og slík ábyrgð fylgir vörunni við kaupin eða eftir viðgerð samkvæmt lögum, reglugerð, samningi eða afgreiðsluskilmálum,

i. sem verður á vöru á meðan hún er í flutningi og/eða hefur ekki verið afhent vátryggðum,

j. við stríð, óeirðir eða hvers konar hernaðarátök, verkfallsaðgerðir eða aðra sambærilega atburði,

k. af völdum kjarnorkuvopna, jónandi geislunar eða geislavirkra efna,

l. við eldgos, jarðskjálfta, skriðuföll, snjóflóð, vatnsflóð og aðrar náttúruhamfarir,

m. hvers konar líffræðileg eða efnafræðileg áhrif og/eða eitrun, þ.m.t. (þar með talið) vegna sýkla og veira, sem hljótast af völdum hryðjuverka.

3.2 Óbeint eða afleitt tjón svo sem afnotamissir, afhendingardráttur eða kostnaður við að taka niður vöru er ekki bætt.

4. Gildistími, endurnýjun og uppsögn. Greiðsla iðgjalds.

4.1 Vátryggingin gildir fyrir það tímabil sem tilgreint er í vátryggingar- eða endurnýjunarskírteini. Þegar tímabilinu lýkur framlengist vátryggingin um einn mánuð í senn nema korthafi segi upp vátryggingunni eða hætti með áskrift að Aur korti. Fellur vátryggingin þá úr gildi við lok vátryggingartímabils.

4.2 Nú hefur vátryggingaratburður orðið, sem leitt hefur til alvarlegs trúnaðarbrests milli félagsins og korthafa, eða áhættumat, sem er til grundvallar vátryggingunni og iðgjald miðast við, hefur gerbreyst, er félaginu þá heimilt að segja tryggingunni upp með tveggja mánaða fyrirvara. Verði þrjú bótaskyld tjón á 18 mánaða tímabili hefur félagið rétt til þess að segja vátryggingunni upp. Skrifleg uppsögn skal fara fram án ástæðulauss dráttar eftir að félaginu varð kunnugt um atvik sem veita því rétt til uppsagnar.

4.3 Sé iðgjald ekki innifalið í áskriftargjaldi Aur er eingöngu hægt að skuldfæra iðgjaldið af Aur korti korthafa.

5. Landfræðileg mörk.

5.1 Vátryggingin gildir hvar sem er í heiminum.

6. Varúðarreglur.

6.1 Vátryggður skal loka gluggum, krækja þá aftur og læsa híbýlum, bílum, bátum og öðrum stöðum þar sem vara er skilin eftir.

6.2 Vátryggður skal ekki skilja við hina vátryggðu vöru eftirlitslausa á almannafæri og gæta þess að taka hana með þegar staður er yfirgefinn.

6.3 Vátryggður skal sjá til þess að hin vátryggða vara sé í viðeigandi og fullnægjandi umbúðum til að þola flutning.

6.4 Vátryggður skal fylgja notkunarleiðbeiningum sem gilda um vátryggða vöru.

6.5 Brot gegn varúðarreglum þessum getur leitt til þess að ábyrgð félagsins falli niður í heild eða að hluta, sbr. (samanber) 26. gr. (grein) laga um vátryggingarsamninga nr. (númer) 30/2004.

7. Vátryggingarfjárhæð. Eigin áhætta.

7.1 Hámarksbætur vegna hvers tjónsatviks eru kr. 350.000 en samanlagt kr. 800.000 á hverju 12 mánaða tímabili.

7.2 Eigin áhætta í hverju tjónsatviki er kr. 35.000.

8. Ráðstafanir til varnar tjóni. Tilkynning um tjón.

8.1 Þegar það atvik sem vátryggt er gegn, hefur gerst eða hætta er á að það beri að höndum, ber vátryggðum að reyna að afstýra tjóninu.

8.2 Þegar tjón er orðið skal vátryggður tafarlaust tilkynna félaginu um atvikið.

8.3 Auk tilkynningar til félagsins skv. (samkvæmt) 2. mgr. (málsgrein) skal jafnframt tilkynna lögreglu um innbrot, rán og skemmdarverk með ósk um rannsókn.

8.4 Vanræksla á skyldum vátryggðs samkvæmt þessu ákvæði getur varðað lækkun eða missi bóta skv. 28. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.

9. Tjón sem er bætt og ákvörðun bóta.

9.1 Vátryggingarverðmæti vöru er verð vörunnar á kaupdegi hennar.

9.2 Félagið greiðir bætur fyrir algert tjón ef vara verður fyrir svo miklum skemmdum að félagið álítur, að teknu tilliti til vátryggingarverðmætis, það ekki borga sig að gera við hana eða ef vara hverfur vegna innbrotsþjófnaðar eða ráns.

9.3 Skemmist varan án þess að skilyrði 2. mgr. séu fyrir hendi greiðir félagið kostnað við að gera við vöruna að svo miklu leyti sem unnt er að teknu tilliti til vátryggingarverðmætis. Áður en viðgerð hefst skal leita samþykkis félagsins á tjónsmati. Félaginu er ekki skylt að greiða bætur fyrir viðgerð sem hafin er án samþykkis þess.

9.4 Tjón á vörum sem tilheyra pari eða samstæðu bætast hlutfallslega.

9.5 Ef tjón á vöru er bætt sem altjón getur félagið krafist afhendingar á vörunni. Stolnar vörur sem koma fram eftir að bótagreiðsla hefur verið innt af hendi eru eign félagsins og skal þeim skilað til þess.

10. Ásetningur og stórkostlegt gáleysi vátryggðs.

10.1 Valdi vátryggður tjóni af ásetningi ber félagið enga ábyrgð á tjóninu. Hafi hann valdið tjóninu af stórfelldu gáleysi er félagið laust úr ábyrgð í heild eða að hluta sbr. 27. gr. laga um vátryggingaarsamninga.

11. Vátrygging hjá öðru félagi.

11.1 Þegar tjón hefur orðið og í gildi er önnur vátrygging sem tekur til tjónsins, skal uppgjör bóta fara fram eftir því sem mælt er fyrir um í 37. gr. laga um vátryggingarsamninga.

12. Svik og rangar upplýsingar.

12.1 Hafi vátryggður við gerð eða endurnýjun vátryggingarsamnings sviksamlega eða með öðrum hætti vanrækt skyldu sína til að veita félaginu upplýsingar um atvik sem haft geta þýðingu fyrir mat þess á áhættunni og vátryggingaratburður hefur orðið fellur ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta, sbr. 20. gr. laga um vátryggingarsamninga. Rangar og ófullnægjandi upplýsingar veita félaginu ennfremur rétt til að segja vátryggingunni upp, sbr. 21. gr. laganna.

12.2 Veiti vátryggður rangar upplýsingar sem hann veit eða má vita að leiða til þess að hann fær greiddar bætur sem hann á ekki rétt til fellur bótaréttur hans niður og félagið getur sagt upp öllum vátryggingarsamningum sínum við vátryggðan eins og nánar greinir í 47. gr. laga um vátryggingarsamninga.

13. Greiðsla bóta og vextir.

13.1 Krefjast má greiðslu bóta 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga sem þörf var á til að meta vátryggingaratburðinn og ákveða fjárhæð bóta. Vátryggður á rétt á vöxtum af kröfu sinni skv. 50. gr. laga um vátryggingarsamninga.

14. Lög um vátryggingarsamninga, meðferð ágreiningsmála og varnarþing.

14.1 Að öðru leyti en kveðið er á um í skilmálum þessum, vátryggingarskírteini eða öðrum gögnum, sem vátryggingarsamningurinn byggir á, gilda um hann lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

14.2 Ágreiningi varðandi vátryggingarsamning og bótaskyldu félagsins að öðru leyti má skjóta til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Upplýsingar um nefndina og starfshætti hennar má fá hjá félaginu.

14.3 Þrátt fyrir úrræði 2. mgr. er aðilum heimilt að leggja ágreininginn fyrir dómstóla. Slík mál, svo og önnur mál sem rísa út af vátryggingu þessari, skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Félaginu er þó einnig heimilt að höfða mál út af vátryggingunni á heimilisvarnarþingi vátryggðs.

14.4 Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

Skilmálar þessir gilda frá 1. apríl 2023.

Skráning í tjónagrunn Creditinfo Lánstrausts hf.

Tjón sem tilkynnt eru til vátryggingafélaga eru skráð í sérstakan tjónagrunn sem rekinn er af Creditinfo Lánstrausts hf. samkvæmt samningi við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) sem félagið á aðild að og samkvæmt heimild Persónuverndar. Félagið telst ábyrgðaraðili í skilningi persónuverndarlaga nr. 90/2018 vegna skráningar þess á upplýsingum í grunninn og uppflettingum sem framkvæmdar eru á vegum þess. Tilgangur með skráningu í tjónagrunninn er að stemma stigu við vátryggingarsvikum og ofgreiðslu vátryggingabóta. Skráðar eru upplýsingar um kennitölu tjónþola, tjónsnúmer, tegund vátryggingar og tjóns, dagsetning tjóns og skráningar, staðsetning tjóns og eftir atvikum einkvæmt númer hins vátryggða, s.s. skráningarnúmer ökutækis. Við skráningu tjóns fær félagið yfirlit yfir öll tjón sem tjónþoli hefur tilkynnt óháð félagi og skráð hafa verið í tjónagrunninn. Eingöngu starfsmenn félagsins sem skrá tjón og vinna að tjónauppgjöri hafa aðgang að tjónagrunninum. Upplýsingum skal eytt úr tjónagrunni þegar þeirra gerist ekki lengur þörf í þágu tilgangs vinnslunnar, í síðasta lagi þegar 10 ár eru frá skráningu upplýsinganna.

Aur er vörumerki Kviku banka hf.